Opnir umræðufundir verða í Háskóla Íslands í þessari viku. Þar á að draga lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrunið og koma með ábendingar um mikilvæg framtíðarverkefni. Fyrsti fundurinn verður í hádeginu í dag og er yfirskriftin Menning og samfélag - liggja þar rætur hrunsins?
Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands flytur ávarp í upphafi fundarins í dag. Hulda Þórisdóttir, lektor í stjórnmálafræði, ræðir efnahagshrunið sem afsprengi aðstæðna og fjötraðrar skynsemi. Þá fjallar Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði um hrunið og hnattvæðinguna og erindi Guðmundar Hálfdánarsonar prófessors í sagnfræði heitir Frjálsasta þjóð í heimi.
Fundurinn í dag er sá fyrsti í runu fimm slíkra sem allir verða í hádeginu í þessari viku. Í hverju hádegi verða flutt tvö eða þrjú 15 mínútna inngangserindi og í kjölfarið verða umræður og fyrirspurnir til fyrirlesara. Fyrirlestrar verði teknir upp og settir á vef HÍ.
Málshefjendur koma úr Hagfræðideild, Lagadeild, Sagnfræði- og heimspekideild, Félags- og mannvísindadeild, Stjórnmálafræðideild og Viðskiptafræðideild HÍ.
Fundarstjóri í dag er Anna Agnarsdóttir prófessor í sagnfræði.
Frétt Háskóla Íslands um fundaröðina