Leikskólabörn án kennara

Flugvélar frá Icelandair á flugvellinum í Glasgow í gær.
Flugvélar frá Icelandair á flugvellinum í Glasgow í gær. mbl.is/Ólafur Örn Nielsen

Leikskólabörn í Bláskógabyggð verða að taka sér frí frá skólastarfinu í dag þar sem kennarar þeirra eru nær allir strandaglópar í Kaupmannahöfn.

Að sögn Kristínar Ingunnar Haraldsdóttur, leikskólakennara á Laugarvatni, eru 13 af 16 starfsmönnum leikskólanna tveggja í Bláskógabyggð staddir í Kaupmannahöfn eftir heimsókn í danskan leikskóla en hópurinn átti bókað flug aftur til Keflavíkur með Iceland Express um hádegisbilið í gær.

Vegna gosöskunnar varð ekki af því flugi en hópurinn beið lungann úr gærdeginum á Kastrup-flugvelli eftir flugi sem átti að lenda seint í gærkvöldi á Akureyri. Þaðan stóð til að fara með rútu til Reykjavíkur og svo áfram til Laugarvatns og Reykholts, þannig að hópurinn næði til vinnu í tæka tíð í dag.

Sú áætlun gekk þó ekki eftir því um hálfellefu í gærkvöldi var hópnum snúið aftur á hótel ytra með þeim skilaboðum að ekki yrði flogið til Íslands fyrr en klukkan eitt í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert