Miðað við nýjustu öskufallsspá lítur út fyrir að takmarkanir verði aftur settar á flug til og frá Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli snemma í fyrramálið. Spáin nær til hádegis, og er útlit fyrir að takmarkanir verði á flugi að minnsta kosti fram að því.
Iceland Express ætlar vegna þessa að flýta flugi félagsins frá Keflavík til London og Kaupmannahafnar. Vélarnar fara klukkan 5 í stað 7. Farþegar eru þó beðnir um að fylgjast vel með, þar sem áætlun getur breyst með stuttum fyrirvara.
Icelandair hefur einnig flýtt brottfor tveggja véla, annars vegar til Orlando og hins vegar til Glasgow. Áður hafði þessum vélum verið flýtt til klukkan 9 en hefur brottför nú verið ákveðin klukkan 6.
Þurftu að aflýsa flugi til og frá Vestmannaeyjum
Flugfélag Íslands þurfi að aflýsa flugi á milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur um fimm leytið í dag, sökum þess að svæðið sem ekki er flogið inn á færðist yfir Vestmannaeyjar.
Að öðru leyti var flug félagsins að mestu leyti eins og gengur og gerist, segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri þess. Vél sem átti að lenda á Ísafirði þurfti að vísu að lenda á Þingeyri, en það var vegna vinda og hafði ekkert með gosið að gera.
Árni segir að í raun hafi ótrúlega lítil röskun orðið á innanlandsflugi, miðað við þá röskun sem varð t.d. á meginlandi Evrópu, en allt innanlandsflug féll niður í tvo daga. Mat flugfélagsins er að það hafi orðið af á milli sjö og átta milljónum króna á dag þá daga sem ekkert var flogið.