Áminntur fyrir tal um magakveisu

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Þuríður Backman, þingmaður VG, sem sat í forsetastóli á Alþingi í gærkvöldi, áminnti Jón Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, þegar hann velti vöngum yfir því hvort Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra væri með magakveisu.

Jón Bjarnason hafði þá lokið við að mæla fyrir nýju frumvarpi um hvali en ýmis frumvörp tengd sjávarútvegi voru á dagskrá þingsins í gærkvöldi. Jón Gunnarsson var eini þingmaðurinn, sem vildi ræða um frumvarpið og var ekki hrifinn; sagði að það bæri keim af því að vilja draga úr vilja manna til að stunda hvalveiðar.

Jón gerði síðan athugasemd við að sjávarútvegsráðherra væri ekki í þingsalnum til að hlusta á hann.   „Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann hverfur  úr salnum. Við fengum þá skýringu áðan að hann hefði þurft að bregða sér á snyrtinguna og það er virðingarvert. Ég vona að maðurinn sé ekki með í maganum en ef svo er ættum við kannski að að fresta hér umræðu," sagði Jón.

Þuríður Backman barði í bjölluna og bað þingmanninn að gæta orða sinna. Jón sagðist aðeins hafa verið að  tala íslensku og gat þess, að ráðherrann væri nú kominn í salinn en hann hafði setið í hliðarsal. Hélt Jón síðan áfram ræðu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert