Búist við öskufalli norðvestur af eldstöðinni

Bændur úr Landeyjum heimsóttu nágranna sína undir Eyjafjöllum um helgina …
Bændur úr Landeyjum heimsóttu nágranna sína undir Eyjafjöllum um helgina og aðstoðuðu við hreinsun öskunnar.

Veðurstofan segir, að búast megi við lítilsháttar öskufalli norðvestur og síðar vestur af eldstöðinni í Eyjafjallajökli í dag.  Veðurstofan gerir ráð fyrir austlægri átt í dag, 8-13 m/s, en hvassara síðdegis.  Gert er ráð fyrir lítilli úrkomu, en rigningu með köflum eftir hádegi.

Hreinsunarstarf á sveitabæjum sem verst urðu úti vegna öskufalls er í fullum gangi. Vagn Kristjánsson lögreglumaður hefur yfirumsjón með hreinsunarstarfinu. Hann segir aðkomuna að bæjunum ekki jafnsvarta og áður enda hafi slökkviliðsmenn vatnshreinsað húsin. Þá hafi sveitarfélagið beitt vinnuvélum við að skafa heimreiðar og bæjarhlöð.

Vagn segir enn verið að meta stöðuna og skipuleggja starfið. Hann ráðleggur þeim sem vilja hjálpa til við hreinsun að mynda hópa og senda hjálparboð á netfangið sveitin@hvolsvollur.is.

Elvar Eyvindsson, sveitarstjóri og bóndi í Austur-Landeyjum, segir brúnina vera að léttast á íbúum. „Þetta er ekki eins svart og þegar fólk var statt inni í svartasta mekkinum. Þegar léttir til þá léttist lundin. Að ekki sé talað um þegar svona margir vilja hjálpa til við að þrífa burtu mesta ófögnuðinn.“ Hann segir að ekki sé enn búið að skoða heiðar og afrétt. „Landgræðslan mun líklega koma að því. Það hefði líklega verið gott að eiga ennþá áburðarflugvél.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka