Stefnt er að því að afgreiða frumvarp um ein hjúskaparlög frá Alþingi í vor. Frumvarpið er til meðferðar hjá allsherjarnefnd og í umsagnarferli sem lýkur í byrjun maí. Formaður nefndarinnar segir vilja Alþingis skýran hvað varðar að lögfesta frumvarpið.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, spurði út í málið á Alþingi í dag og hvort ekki hyggðist að klára það í vor. Siv tók fram að búið væri að ræða málið margoft í þinginu og mikill samhljómur um málið.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður allsherjarnefndar og þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist telja að um mjög mikilvægt mál sé að ræða og ekki standi annað til að en að afgreiða það og gera að lögum í vor. Þegar hafi komið inn umsagnir frá hagsmunaaðilum og allar eru þær jákvæðar. Sagðist Steinunn Valdís telja, að það væri mjög skýr og afdráttarlaus Alþingis að gengið sé inn á þessa braut.
Fram kom í morgunþætti Rásar 2 í morgun, að fyrir prestastefnu, sem hefst í kvöld, liggur tillaga um að lýsa yfir stuðningi við frumvarpið. Sagði sr. Sigríður Guðmarsdóttir, einn flutningsmanna tillögunnar, að það værist vera þverpólitísk samstaða um þetta mál meðal presta en 89 flutningsmenn standa að tillögunni.
Lagt er til í frumvarpinu að lögin öðlist gildi þann
27. júní 2010 en sá dagur er táknrænn þegar kemur að gildistöku laga á
þessu réttarsviði. Hér er um að ræða alþjóðlegan mannréttindabaráttudag
samkynhneigðra og hefur hann oftast orðið fyrir valinu þegar lögum hefur
verið breytt til að bæta réttarstöðu samkynhneigðra.
Þegar lög
um staðfesta samvist voru sett árið 1996 tóku þau gildi 27. júní og það
sama má segja um lagabreytingarnar sem voru gerðar með lögum nr. 65/2006
og lögum nr. 55/2008. Þessi dagsetning gefur einnig nokkuð færi á að
undirbúa gildistöku laganna.
Farið var fram á það við
Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni að stofnunin tæki
að sér að semja frumvarp til breytinga á hjúskaparlögum. Í
verkefnalýsingu segir: „Nú er svo komið að rétt þykir að afmá þann mun
sem felst í mismunandi löggjöf vegna hjúskapar karls og konu annars
vegar og staðfestingar samvistar tveggja einstaklinga af sama kyni hins
vegar, og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið
að ein hjúskaparlög verði lögfest.“
//