Engin merki um goslok

Gríðarlegt öskufall hefur verið undir Eyjafjöllum. Mynd tekin í síðustu …
Gríðarlegt öskufall hefur verið undir Eyjafjöllum. Mynd tekin í síðustu viku. mbl.is/Golli

Kvikustreymi og gosmökkur frá Eyjafjallajökli hefur í dag verið með svipuðum hætti og undanfarna sólarhringa og hraun heldur áfram að renna til norðurs í upptökum Gígjökuls. Sprengigos og gjóskumyndun er því aðeins lítið brot af því sem var þegar gosið var mest, eða 14. til 17. apríl, þó gjóskufalls gæti 40 km vestan gosstöðvanna. Ekki sjást merki um að gosi sé að ljúka.

Þetta segir á minnisblaði frá Veðurstofu Íslands og jarðvísindastofnun, en það er byggt á jarðskjálftamælum, GPS-mælingum, vatnsrennsli í Markarfljóti og upplýsingum úr flugi sem farið var í dag.

Gosórói er svipaður og undanfarna daga, segir á minnisblaðinu. Um lit gosmökksins segir að hann sé tvískiptur. „Annars vegar ljós að mestu leyti (gufa) og náði hann yfirleitt ekki hátt, en hins vegar dökkgrár og svartur upp í ca 1/3–1/2 hæð.“

Slettur ná upp í 100 til 200 metra hæð

Vel sást til gossins í fluginu segir á minnisblaðinu. „Gígurinn er staðsettur í suð-vesturhorni ketilsins og hleðst upp jafnt og þétt. Gígbarmar eru á að giska 50 m lægri en barmar ketilsins. Stöðug klepravirkni, slettur ná í 100–200 m hæð. Öskumekkir rísa upp með ákveðnu millibili en eru ekki stöðugir. Höggbylgjur sáust neðst í mekkinum. Hraun heldur fram að renna til norðurs og hefur nú náð um 1 km frá gígnum.

Dældir í jöklinum sem hraun rennur eftir hafa stækkað mikið frá á laugardag þegar síðast sást til gosstöðvanna. Gígjökull er grár vegna gjóskufalls. NV-kinn jökulsins er svört af gjósku. Öskufjúk með upptök á láglendi sunnan jökulsins sást undir Eyjafjöllum og í A-Landeyjum.“

Flogið með vél Landhelgisgæslunnar yfir eldstöðvarnar sunnudaginn 18. apríl.
Flogið með vél Landhelgisgæslunnar yfir eldstöðvarnar sunnudaginn 18. apríl. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert