Óljóst er hve tjónið, sem bændur í nágrenni Eyjafjallajökuls hafa orðið fyrir vegna eldgossins þar, er mikið. Þá er einnig óljóst hvernig Bjargráðasjóður verður í stakk búinn til að bæta þetta tjón. Þetta kom fram á fundi framkvæmdastjóra sjóðsins með bændum undir Eyjafjöllum í dag.
Árni Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs, sagði á fundinum að ekki væri ljóst hve miklum fjármunum sjóðurinn hefði úr að spila. Þá yrði nú reynt að meta tjón bænda en það væri erfitt þar sem ekki væri ljóst hve gosið varir lengi og einnig fer það eftir uppskerunni í sumar.
Landbúnaðarnefnd Alþingis mun fjalla um málið á morgun. Árni fór yfir tilgang Bjargráðasjóðs, sem nú starfar undir hatti Bændasamtaka Íslands.