Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði á Alþingi í dag, að ríkið innheimti fjölda gjalda, sem séu sama eðlis og iðnaðarmálagjald en Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði í morgun að það gjald bryti í bága við mannréttindasáttmálann.
Pétur sagðist tvisvar hafa lagt fram frumvarp um að afnema iðnaðarmálagjaldið. „Það gengur ekki að skylda aðila til að greiða til félaga, sem þeir eru hugsanlega á móti og beita til þess skattaúrræðum ríkisins," sagði Pétur.
Hann sagði að ríkið stæði í innheimtu á fjölda félagsgjalda samkvæmt lögum. Sagðist Pétur hafa lagt fram frumvörp um að afnema búnaðargjaldið, sem sé félagsgjald til Bændasamtaka Íslands, fiskiræktargjald sem greitt er fyrir vatnsaflsvirkjanir og rennur til Fiskiræktarsjóðs og stefgjald, 2% sem innheimt er af öllum tölvum og fylgihlutum þeirra og rennur til höfundarréttarfélagsins STEFs.
„Grófasta dæmið er sennilega önnur málsgrein 7. greinar laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna en þar eru allir opinberir starfsmenn skyldaðir til að greiða félagsgjalds til ákveðins opinbers stéttarfélags en ég hef sjö sinnum flutt frumvarp um að afnema þá skyldu," sagði Pétur. Sagði hann hvorki kveðið á um hámark á þessi gjaldi né á um hvernig því sé varið.