Fjórir stjórnarmenn í Blaðamannafélagi Íslands skrifuðu undir reikninga félagsins á stjórnarfundi í gær en fjórir stjórnarmenn, þar á meðal formaður og varaformaður félagsins, gerðu það ekki eins og fram kom í frétt mbl.is fyrr í dag.
Stjórnarmennirnir fjórir, sem skrifuðu undir reikningana, hafa sent frá sér yfirlýsingu sem birt er á heimasíðu Blaðamannafélagsins. Segir þar m.a. að fyrir stjórnarfundinum hafi legið reikningar félagsins sem höfðu verið endurskoðaðir, bæði af löggiltum endurskoðanda og félagslegum endurskoðendum BÍ.
„Ekkert í umræðu fundarins gaf til kynna að einstakir stjórnarmenn hefðu nokkuð við reikninga félagsins sem slíka að athuga þó augljóst væri að samskipti við framkvæmdastjóra félagsins gerðu það að verkum að fjórir fundarmenn vildu ekki undirrita reikningana að svo komnu máli. Þess ber að geta að aðrir fundarmenn undirrituðu reikningana þannig að ekki er rétt að meirihluti stjórnar hafi neitað þeim undirritunar. Þar sem þetta var áætlaður síðasti fundur stjórnar BÍ fyrir aðalfund var undirritun reikninga á dagskrá að venju. Nú eru horfur á að stjórn félagsins komi saman aftur fyrir aðalfund og þá gefst vonandi tækifæri til að ljúka undirritun þeirra," segir í yfirlýsingunni.
Undir hana skrifa Svanborg Sigmarsdóttir, gjaldkeri, Sigurður Már Jónsson, ritari, Óli Kr. Ármannsson, meðstjórnandi, og Albert Örn Eyþórsson, meðstjórnandi.
Yfirlýsing stjórnarmannanna fjögurra