Mannréttindadómstóll Evrópu komst í morgun að þeirri niðurstöðu að íslensk lög um iðnaðarmálagjaldið standist ekki ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu. Um er að ræða mál, sem Vörður Ólafsson höfðaði gegn íslenska ríkinu en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu árið 2005 að álagning iðnaðarmálagjaldsins hefði verið lögmæt.
Dómstóllinn í Strassborg komst að þeirri niðurstöðu, að íslensk stjórnvöld hefðu ekki getað réttlætt þá íhlutun í félagafrelsi Varðar, sem fælist í gjaldinu og ekki tryggt jafnvægis milli réttar hans til að neita aðild að félagi og þeirra hagsmuna sem fælust í því að þróa og efna iðnað í landinu. Þess vegna hefði ríkið brotið gegn 11. grein mannréttindasáttmálans um félagafrelsi.
Úrskurðaði dómstóllinn að íslenska ríkið skuli greiða Verði 26 þúsund evrur í málskostnað en hann hafði ekki farið fram á skaðabætur.
Iðnaðarmálagjald, 0,08%, er lagt á allan iðnað í landinu. Tekjur af gjaldinu renna til Samtaka iðnaðarins og á að verja þeim til að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu.
Í tilkynningu frá Samtökum iðnaðarins segir, að niðurstaðan sé vonbrigði. Tvívegis hafi Hæstiréttur Íslands fjallað um málið og komist að annarri niðurstöðu en nú hafi mannréttindadómstóllinn kveðið upp sinn dóm.
„Samtök iðnaðarins áttu ekki aðild að þessum dómsmálum enda þótt þau vörðuðu gjald sem iðnaðurinn í landinu greiðir og rennur til þeirra. Það var ríkið sem var varnaraðili í málinu enda fjallað um lög frá Alþingi sem hafa verið í gildi um áratugaskeið. Niðurstaðan hefur mikil áhrif á rekstur Samtaka iðnaðarins og þar með hagsmunagæslu iðnaðarins í landinu. Niðurstaðan mun einnig hafa áhrif á fjármögnun annarra hagsmunasamtaka og verkefna í atvinnulífinu.
Samtök iðnaðarins munu þegar í stað óska eftir viðræðum við iðnaðarráðherra um framhald málsins og hvernig íslensk stjórnvöld hyggjast bregðast við," segir í tilkynningu SI.