„Lítill fallegur gullmoli“ í Grjótaþorpinu

Vaktarahúsið í Grjótaþorpinu.
Vaktarahúsið í Grjótaþorpinu. mbl.is/Júlíus

Starfsmenn á vegum Minjaverndar hafa í vetur unnið við endurbætur á Vaktarahúsinu í Grjótaþorpinu, og er sú vinna langt á veg komin. Það er næst elsta hús Reykjavíkur og líklega minnsta íbúðarhúsnæði borgarinnar að sögn Þorsteins Bergssonar, framkvæmdastjóra Minjaverndar.

Vinna við endurbætur hússins hófust í október í fyrra og er stefnt að því að ljúka framkvæmdum í sumar. Þá verður m.a. hlaðinn lítill grjótgarður meðfram götunni og lóðin tekin í gegn. Húsið er ekki stórt, aðeins um 44 fermetrar að flatarmáli. Stefnt er að því að leigja það út til ferðamanna.

„Þetta verður lítill fallegur gullmoli. Minnsta íbúðarhús Reykjavíkur sjálfsagt, þegar upp verður staðið,“ segir Þorsteinn.

Húsið er talið vera byggt á árunum 1840-1844 og að sögn Þorsteins er Aðalstræti 10 eina hús borgarinnar sem er eldra. Vaktarahúsið var upphaflega byggt sem geymsluhús við Vaktarabæinn, Garðastræti 23, þar sem Sigvaldi Kaldalóns fæddist.

Síðar breyttist notkun hússins yfir í að vera íbúðarhús. Þar bjuggu m.a. vaktararnir, fyrstu lögreglumenn Reykjavíkur, feðgarnir Gissur Símonarson og Símon sonur hans.

Búið var í húsinu framundir 1960, en síðan þá hefur það verið í lítilli notkun.

Vaktarahúsið áður en endurbæturnar hófust.
Vaktarahúsið áður en endurbæturnar hófust. mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert