Meirihluti ók of hratt

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu myndaði í dag yfir hundrað bifreiðar á tveimur götum í íbúðarhverfum í Kópavogi, og kom að meirihluti ökumanna keyrði yfir leyfilegum hámarkshraða á báðum vegum.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að brot 50 ökumanna voru mynduð á Borgarholtsbraut í Kópavogi í dag. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Borgarholtsbraut í vesturátt, að Suðurbraut. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 76 ökutæki þessa akstursleið og því ók meirihluti ökumanna, eða 66%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 47 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Sextán óku á 50 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 67.

Brot 79 ökumanna voru mynduð á Digranesvegi í Kópavogi í dag. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Digranesveg í austurátt, gegnt Menntaskólanum í Kópavogi. Á einni klukkustund, fyrir hádegi, fóru 153 ökutæki þessa akstursleið og því ók meirihluti ökumanna, eða 52%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 43 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Ellefu óku á 50 km hraða eða meira en sá sem hraðast ók mældist á 58. 

Margir óku of hratt fyrir ári

Mælingar á báðum stöðum fyrir ári síðan leiddu einnig í ljós að margir óku of hratt. Á sama stað á Borgarholtsbraut ók 68% ökumanna of hratt í mars og 56% í maí. Á þessum sama stað á Digranesvegi fyrir ári síðan óku 51% of hratt eða yfir afskiptahraða.

Mælingarnar í dag eru hluti af sérstöku umferðar- og hraðaeftirliti í og við íbúðargötur í umdæminu. Á vegunum var staðsett ómerkt lögreglubifreið sem er búin myndavélabúnaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert