Fjórir stjórnarmenn af sjö í Blaðamannafélagi Íslands, þ.á.m. formaður þess og varaformaður, hafa neitað að undirrita ársreikning félagsins. „Í þessu felst engin ásökun eða aðdróttun. Ég tel hins vegar að ég þurfi að framfylgja félagslögum sem formaður félagsins,“ segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir.
„Við höfum óskað eftir gögnum úr bókhaldi félagsins sem hafa ekki fengist, og framkvæmdastjórinn hefur legið á því,“ segir Þóra Kristín í samtali við mbl.is. Hún telur eðlilegt að stjórn félagsins hafi einhverjar forsendur til að rækja eftirlitshlutverk sitt. „Að það sé einhver sem fylgir því eftir að útgjöld félagsins séu í samræmi við vilja stjórnar og fundargerðir,“ segir hún ennfremur.
„Þessi uppákoma á stjórnarfundinum tengist mótframboði mínu gegn
sitjandi formanni félagsins,“ segir Hjálmar Jónsson, framkvæmdastjóri
BÍ, í samtali við mbl.is. Nk. fimmtudag munu félagsmenn BÍ kjósa sér formann, en valið stendur á milli Hjálmars og Þóru Kristínar.
Hjálmar tekur fram að reikningarnir hafi verið endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda, yfirfarnir af skoðunarmönnum félagsins og undirritaðir af öðrum stjórnarmönnum.
Hann bendir á að rekstur félagsins á síðasta ári hafi gengið ótrúlega vel miðað við erfiðar aðstæður og tekjurýrnun vegna uppsagna og atvinnuleysis félagsmanna í BÍ.
Auk formannsins neituðu þau Svavar Halldórsson, Elva Björk
Sverrisdóttir, varaformaður BÍ, og Sólveig Bergmann að undirrita
ársreikninga félagsins á stjórnarfundi í gærkvöldi. „Formaðurinn og
stjórnin hafa í allan vetur óskað eftir upplýsingum um ýmislegt sem
tengist rekstri félagsins, en svörin hafa verið lítil og rýr. Ég sem
stjórnarmaður tel mig ekki geta sinnt þeirri skyldu minni að hafa
eftirlit með starfsemi félagsins í þessu upplýsingaleysi,“ segir Svavar í
samtali við mbl.is.
Þóra Kristín segist hafa stungið upp á því við framkvæmdastjórann að reikningar félagsins yrðu áritaðir af sérstökum gjaldkera. „Hann hefur sett sig upp á móti því að ég fái að sjá gögn úr bókhaldi eða upplýsingar um hvað félagið sé að greiða fyrir. Stjórnin óskaði síðan eftir þessu formlega og það dugði ekki til.“
Þá segist hún hafa bókað sig frá ábyrgð á fjármunum félagsins í vetur vegna þessa. „Ég get ekki tekið ábyrgð á fjármunum félags ef ég fæ ekki að sjá gögnin um þau,“ segir Þóra Kristín og bætir við: „Framkvæmdastjórinn vill hafa þetta félag algjörlega í rassvasanum og vill helst ekki að stjórnin sé að skipta sér af.“