Hjálmar Jónsson, framkvæmdastjóri Blaðamannafélagsins, hefur sent frá sér athugasemd vegna yfirlýsingar hluta stjórnar félagsins. Tekur Hjálmar fram að öllum spurningum um laun starfsmanna BÍ og starfssvið framkvæmdastjóra hafi hann svarað með greinargerð á stjórnarfundi 24. febrúar sl.
„Ekki hefur verið óskað eftir frekari greinargerðum frá framkvæmdastjóra eftir það. Ársreikningur félagsins var einnig ljósritaður og afhentur eftir stjórnarfund í gær. Undirritaður ætlar ekki að standa í opinberum ritdeilum við hluta stjórnar BÍ í aðdraganda kosninga, en er meira en fús til að ræða þessa hluti út í hörgul á aðalfundi BÍ. Þar er rétti vettvangurinn og eru félagar í BÍ hvattir til þess að fjölmenna á fundinn," segir í athugasemd Hjálmars sem hann sendi á fjölmiðla í kvöld.