Óréttlátt að íslenska þjóðin beri ein kostnaðinn

Prestastefna er haldin í Vídalínskirkju í Garðabæ.
Prestastefna er haldin í Vídalínskirkju í Garðabæ.

Framkvæmdastjóri Lúterska heimssambandsins vísar í kveðju til Prestastefnu, sem hófst í kvöld, til Icesave-reikninga Landsbankans og segir að það sé óréttlátt, að íslenska þjóðin eigi ein að bera efnahagslegan og félagslegan kostnað vegna þeirra.

Í kveðjunni fjallar sr. Ishmael Noko um eldgosið sem hafi valdið því að erlendir gestir, sem ætluðu að sækja prestastefnuna, hafi ekki komist á áfangastað.

„Ísland hefur nýlega verið miðpunktur annarskonar goss - þegar alþjóðlegu fjármálamarkaðarnir komust í uppnám síðla árs 2008 og sem færði skyndilega upp á yfirborðið ýmislegt sem hafði farið leynt. Þetta gos spjó ösku yfir öll göfug orð og áform um efnahagslega ábyrgð, eftirlit og samstöðu. Ég vísa auðvitað til hruns netbankans Icesave og afleiðinga þess á Íslandi og víðar í Evrópu," segir Noko.

Hann segir að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hafi Íslendingar þurft að horfast í augu við spillingu, svik og vanrækslu. Hins vegar sé ljóst að ekki sé um að ræða séríslenskt vandamál heldur beri nánast allar ríkisstjórnir heims ábyrgð á mistökum sem gerð voru í löggjöf og við eftirlit með alþjóðlegri fjármálastarfsemi. 

„Kirkjan er ekki stofnun sem mótar efnahagsstefnu. En kirkjan þekkir óréttlæti þegar hún sér það. Og það er óréttlátt, að íslenska þjóðin eigi ein að bera hinn efnahagslega og samfélagslega kostnað sem hlotist hefur af ábyrgðarleysi og margir ættu að deila, ekki síst þær ríkisstjórnir, sem nú leggja fram kröfur á Ísland," segir Noko.

Kveðja Lúterska heimssambandsins til Prestastefnu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka