Brimborg hefur kært til umboðsmanns Alþingis málsmeðferð Reykjavíkurborgar vegna lóðar, sem fyrirtækið fékk úthlutað og ekki fengið að skila aftur. Fer Brimborg fram á, að umboðsmaður skili rökstuddu áliti um hvort Reykjavíkurborg hafi með ákvörðun sinni brotið gegn lögum um gatnagerðargjald, stjórnsýslulögum og stjórnarskrá.
Í tilkynningu frá Brimborg segir, að fyrirtækið hafi um 18 mánaða skeið freistað þess að fá sanngjarna meðferð hjá Reykjavíkurborg vegna skila fyrirtækisins á lóð þess að Lækjarmel 1. Brimborg hafi gætt þess að fara réttar leiðir við að leita réttar síns og kært eftir þeim leiðum sem boðið er upp á, þ.e. til samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytisins. Ráðuneytið úrskurðaði Brimborg í vil.
Reykjavík hefur hins vegar vísað til þess að sérstök heimild borgarráðs þurfi að liggja að baki því að skila lóðum, sem úthlutað hefur verið undir atvinnuhúsnæði.