Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að ólíklegt væri að iðnaðarmálagjald verði endurgreitt þrátt fyrir niðurtöðu Mannréttindadómstóls Evrópu. Þremur ráðherrum hefur verið falið að fara ítarlega yfir málið.
Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði forsætisráðherra út í viðbrögð ríkisstjórnarinnar við dómnum og jafnframt hvort ekki þurfi að afnema önnur gjöld, s.s. búnaðargjald.
Jóhanna svaraði því til að málið hefði verið rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í gærmorgun. Var komist að þeirri niðurstöðu að fara þurfi vandlega yfir niðurstöðu Mannréttindadómstóls og meta áhrif og afleiðingar. Meðal annars þurfi að skoða hvort hætt verði að innheimt gjaldið. Hún sagði þó að ólíklegt væri, að gjaldið yrði endurgreitt.
Jafnframt sagði ráðherrann, að hún muni beita sér fyrir því skoðuð verði áhrifin á önnur gjöld en hún telji engu að síður ólíklegt að sama niðurstaða fáist um þau og iðnaðarmálagjaldið.
Iðnaðarmálagjald, 0,08%, er lagt á allan iðnað í landinu. Tekjur af gjaldinu renna til Samtaka iðnaðarins og á að verja þeim til að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu.
Mannréttindadómstóll Evrópu komst í gærmorgun að þeirri niðurstöðu að
íslensk lög um iðnaðarmálagjaldið standist ekki ákvæði
mannréttindasáttmála Evrópu. Um er að ræða mál, sem Vörður Ólafsson
höfðaði gegn íslenska ríkinu en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu
árið 2005 að álagning iðnaðarmálagjaldsins hefði verið lögmæt.