Beðnum um aðstoð til Hjálparstarfs kirkjunnar hefur fjölgað gífurlega síðustu misseri. Sem dæmi má nefna að á tímabilinu frá janúar til mars árið 2008 voru 570 umsóknir frá fjölskyldum en á sama tímabili árið 2010 voru beðnir um aðstoð frá fjölskyldum 2578. Þessar fjölskyldur eru oft barnmargar.
Þetta kom fram í erindi Vilborgar Oddsdóttur, félagsráðgjafa hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, á Prestastefnu í dag.
Vilborg sagði, að konur væru 60% þeirra sem sækja um aðstoð og einstæðir foreldrar í meirihluta. Áður fyrr hafi verið sjaldgæft að þau sem sæktu um aðstoð byggju í eigin húsnæði en nú eigi það við um 40% umsækjenda og mjög fjölgi í aldurshópnum 20-39 ára, sem eru aðallega ungar fjölskyldur með húsnæði á lánum.