Icesave tefur afnám gjaldeyrishafta

Vefsvæði Icesave.
Vefsvæði Icesave. Reuters

Töf á lausn í Icesave-málinu tefur losun gjaldeyrishafta, leiðir til hærri fjármögnunarkostnaðar og veldur meiri samdrætti og atvinnuleysi á árinu 2010. Þetta sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi í dag. Stjórnarandstöðuþingmenn sögðu ekkert að marka yfirlýsingar ráðherrans.

Umræðan fór fram í fyrirspurnartíma. Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði forsætisráðherra út í kostnað vegna tafa á lausn Icesave og vitnaði í orð hennar að á Íslandi yrði frostavetur í efnahagslífinu ef Icesave-samningarnir yrðu ekki samþykktir.

Í svari sínu sagði Jóhanna, að óleyst Icesave hamli framgangi efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og þó svo önnur endurskoðun hafi farið fram sé hætta á frekari töfum ef ekki fæst niðurstaða á næstu vikum eða mánuðum.

Einnig kunni að verða töf á losun gjaldeyrishafta sem dregur verulega úr skilvirkni hagkerfisins og þar með hagvexti. Töfin á lausn Icesave hamli einnig fjárfestingum og leiði til hærri fjármagnskostnaðar ríkisins og sveitarfélaga. Augljósasti kostnaðurinn sé þá tafir á fjárfestingum í orkufrekum iðnaði vegna efnahagslegrar óvissu og erfiðs aðgengis að fjármagni.

Forsætisráðherra sagði að útlit væri fyrir að afleiðingarnar yrðu þær að samdráttur á árinu verði 2% meiri en ella sem samsvarar 30 milljörðum króna og 1-2% meira atvinnuleysi.

Allt í sæmilegu lagi hér á landi

Svar forsætisráðherra fékk vægast sagt dræmar undirtektir hjá þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði ekkert að marka fyrri yfirlýsingar og það eina sem hefði gerst væri að samningsstaðan sé betri gagnvart Bretum og Hollendingum. Annar sjálfstæðismaður, Pétur H. Blöndal, bætti um betur og sagði margt hafa gengið í haginn eftir að forseti Íslands synjaði lögunum staðfestingar. Allt sé hér í sæmilegum gangi. Pétur sagði jafnframt að þeir þingmenn sem studdu fyrirliggjandi lög um Icesave skuldi þjóðinni skýringar á því hvað þeir voru eiginlega að gera.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagðist sammála Pétri H. Blöndal um að hér væri allt í sameiginlegum gangi. Hins vegar sé staðreyndin sú að gjaldeyrishöftin séu enn á vegna þess að Icesave er ekki lokið. Þá hafi ekki tekist að fá fjármagn í þrjár virkjanir vegna þeirra tafa. Jafnframt sagði hann ríkisstjórnina hafa unnið pólitískt kraftaverk með því að koma endurskoðun AGS í gegn. Það sé þess vegna sem hér sé allt í sæmilegum gangi.

Jóhanna Sigurðardóttir lauk svo umræðunni og sagði hana býsna athyglisverða. Sér í lagi þar sem þingmenn stjórnarandstöðuna hefðu komið upp og sagt allt í góðu lagi hér á landi og skammi forsætisráðherra fyrir svartagallsraus. Það sé af sem áður var. Þá sagðist hún aðeins hafa vitnað í staðreyndir og merkar stofnanir, s.s. Seðlabankann, og virt félagasamtök á borð við ASÍ. Og þó ekki sé hægt að tala um frostavetur sé ljóst að það muni hafa veruleg áhrif á efnahagsstöðu landsins leysist Icesave-deilan ekki á næstunni.

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert