Búið er að opna aftur Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll fyrir millilandaflugi og er útlitið fyrir næstu daga gott. Ástæða opnunarinnar er sú að breska veðurstofan, sem gefur út spár um öskudreifingu, hefur tekið nýjar mælingar á magni ösku sem kemur úr gígnum á toppi Eyjafjallajökuls inn í spár sínar.
Spár bresku veðurstofunnar hafa hingað til byggt á forsendum sem gera ráð fyrir að meira öskumagn komi úr gígnum en það hefur raunverulega gert undanfarna daga. Við það að taka réttar forsendur inn í spá sínar, minnkar verulega það svæði sem flug er takmarkað á, sem eins og áður segir þýðir að aftur er hægt að notast við Keflavíkurflugvöll í millilandaflugi.
Von var á flugvél Iceland Express til Keflavíkur frá Tenerife strax klukkan 18 og í kvöld klukkan 21 er von á flugvél félagsins þangað frá Kaupmannahöfn.
Síðar í kvöld, eða klukkan 21:20, er von á þremur flugvélum Icelandair frá Glasgow og klukkan 22 á flugvél Iceland Express frá Gatwick í Lundúnum að lenda á vellinum.
Þá gerir Icelandair ráð fyrir, að senda flugvélar klukkan 20 í kvöld til Manchester, Stokkhólms, Ósló og Kaupmannahafnar.
Brottfarir frá Keflavíkurflugvelli í kvöld