Von er á þýskri rannsóknarflugvél hingað til lands á morgun til að mæla magn ösku sem kemur upp úr gígunum í Eyjafjallajökli. Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins, að margt bendi til þess að spár um gjóskudreifingu, sem ákvarðanir um flugbann byggjast á, ofmeti magn ösku í lofthjúpnum.
Flugstoðir hafa tekið ákvarðanir um takmarkanir á flugumferð og byggt þær ákvarðanir á spám bresku veðurstofunnar um gjóskudreifingu, sem aftur byggir á gögnum frá Veðurstofunni. Haraldur sagði við Útvarpið, að ýmislegt bendi til að öskumagn í lofthjúpnum sé ofmetið í spám frá bresku veðurstofunni.