Segir keppinauta hafa undirritað haldlagningarskrár

mbl.is/Kristinn

Síminn ítrekar, að starfsmenn keppinautarins Þekkingar hafi tekið fullan þátt í húsleit og haldlagningu gagna hjá Símanum og Skiptum nýlega. Segir  fyrirtækið að svonefndar haldlagningarskrár séu fjölmargar undirritaðar af starfsfólki Þekkingar og staðfesti að starfsfólk Þekkingar hafi afritað gögn Símans.

Síminn tilkynnti í gær, að fyrirtækið hefði stefnt Samkeppniseftirlitinu fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og krafist þess að öllum gögnum sem starfsmenn Þekkingar tóku afrit af verði eytt. Samkeppniseftirlitið sagði að þessi stefna byggðist á misskilningi og einstaklingar, sem starfi hjá Þekkingu og fengnir voru til að aðstoða við húsleitirnar, hafi verið starfsmenn Samkeppniseftirlitsins á vettvangi og starfað samkvæmt fyrirmælum og á ábyrgð þess. Þeir hefðu hvergi komið nærri haldlagningu gagna eða efnislegri skoðun tölvugagna. 

Síminn segir að eftir húsleitina liggi tugir svokallaðra haldlagningarskráa, þar af séu fjölmargar undirritaðar af starfsfólki Þekkingar sem staðfesti að það afritaði gögn Símans.

„Starfsmenn Þekkingar tóku því fullan þátt í framkvæmd haldlagningarinnar, sáu um afritun gagna og undirrituðu að henni lokinni með eigin hendi meirihluta haldlagningarskráa. Dæmi voru um að starfsmenn Þekkingar opnuðu skrárnar og lögðu sjálfstætt mat á efni þeirra, án þess að starfsmenn Samkeppniseftirlitsins væru nærri.

Síminn lýsir miklum vonbrigðum með vinnubrögð Samkeppniseftirlitsins við rannsókn sína og viðbrögð við kæru fyrirtækisins. Síminn ítrekar að fyrirtækið vill vinna með Samkeppniseftirlitinu og láta því í té allar upplýsingar sem þörf er á við rannsókn þess máls sem eftirlitið hefur til rannsóknar. Síminn mun hins vegar ekki sætta sig við ófagleg vinnubrögð við meðhöndlun trúnaðargagna er snerta Símann og viðskiptavini hans.Síminn telur að Samkeppniseftirlitið hafi látið vanhæft fólk í skilningi laga framkvæma leitina og þannig farið á svig við lög," segir í tilkynningu frá Símanum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert