Sjóðsstjóri Gildis fer frá

Frá ársfundi Gildis í kvöld.
Frá ársfundi Gildis í kvöld. mbl.is/Golli

Tillaga Jóhanns Páls Símonarsonar sjómanns og lífeyrisþega í lífeyrissjóðnum Gildi þess efnis að stjórn sjóðsins, framkvæmdastjóri og sjóðstjóri færu frá vegna meintrar vanrækslu í starfi  og Fjármálaeftirlitið tæki við stjórninni var felld á ársfundi Gildis í kvöld með öllum greiddum atkvæðum.

Tilkynnt var á fundinum að Tryggvi Tryggvason, sjóðsstjóri, hefði sagt starfi sínu lausu í dag en Jóhann og nokkrir sjóðsfélagar höfðu krafist þess að hann hætti af sömu ástæðu.

Ársfundi þessa þriðja stærsta lífeyrissjóðs landsins er nýlokið. Um mikinn hitafund var að ræða og var fullt út af dyrum. Stjórn sjóðsins hyggst svara tillögunni skriflega.

Nafnávöxtun sjóðsins á síðasta ári var 6,8% og raunávöxtun var neikvæð um 1,5%. Hrein eign til greiðslu lífeyris var 227,3 milljarðar króna í árslok og hækkaði um 18,4 milljarða króna eða um 8,8% frá árslokum 2008. Heildarskuldbindingar sjóðsins voru 11,6% hærri en eignir í lok árs 2009 samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt. Samþykkt var að lækka áunnin réttindi um 7% og að lækkunin hjá lífeyrisþegum verði framkvæmd í tvennu lagi, 3,5% 1. júní 2010 og 3,5% 1. nóvember 2010.

Réttindi sjóðsfélaga voru hækkuð um 7% árið 2006 og 10% árið 2007 umfram vísitöluhækkanir en lækkuð um 10% árið 2009.

Alls 39.672 einstaklingar greiddu iðgjöld til Gildis árið 2009. Alls eiga 177.791 einstaklingar réttindi hjá sjóðnum.  Iðgjöld til sjóðsins á árinu 2009 voru 10,8 milljarðar króna og lækkuðu um 4,5% frá fyrra ári. Lífeyrisgreiðslur námu 7,9 milljörðum króna og hækkuðu um 18,2%.

Eignir sjóðsins skiptust þannig í lok árs 2009 að 58% voru í innlendum skuldabréfum, 2% í innlendum hlutabréfum, 7% í innlánum og 33% í erlendum verðbréfum.

Frá ársfundi Gildis.
Frá ársfundi Gildis.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert