Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, stendur við fyrri yfirlýsingar um að starfsmenn Þekkingar hafi ekki lagt hald á gögn í húsleit hjá Símanum í liðinni viku. Segir hann starfsmenn Þekkingar einungis hafa komið að afritun rafrænna gagna og tengdum verkefnum, m.a. undirritun eyðublaða tengdum afrituninni.
Í tilkynningu sem Síminn sendi frá sér í dag segir að handlagningaskrá undirrituð af starfsmönnum Þekkingar stangist á við fullyrðingar Páls Gunnars í fjölmiðlum í gær þess efnis að starfsmenn Þekkingar hafi hvergi komið nálægt handlagningu gagna.
„Við fengum einstaklinga með upplýsingatækniþekkingu til liðs við okkur við aðgerðina og leituðum til Þekkingar í því skyni. Þessir einstaklingar voru starfsmenn Samkeppniseftirlitsins á vettvangi og fólst hlutverk þeirra í afritun rafrænna gagna. Efnisleg skoðun rafranna gagna sem varða þetta mál er hins vegar ekki hafin,“ segir Páll Gunnar.
Segir ekkert athugavert við að fá utanaðkomandi aðstoð
Aðspurður hvort ekki sé undarlegt að starfsmenn fyrirtækis sem er í samkeppni við Símann taki þátt í húsleit hjá fyrirtækinu, segir Páll Gunnar: „Samkeppniseftirlitið þarf oft að leita í stærri verkefnum til aðila út fyrir stofnunina og gerir það á faglegan hátt. Það er ekkert athugavert við það.
Hins vegar er það réttur fyrirtækja að láta reyna á starfshætti eftirlitsins, bæði formlega þætti og eins efnislegar niðurstöður. Síminn hefur borið málið undir Héraðsdóm Reykjavíkur og það er hinn rétti vettvangur til að útkljá þetta mál. Þar munum við svara málatilbúnaði Símans.“
Þá bendir Páll Gunnar á að reglulega hafi fyrirtæki, sem rannsókn eftirlitsins beinist að, látið reyna á framkvæmd rannsókna og efnislegar niðurstöður þeirra. Það hafi til að mynda olíufélögin gert í máli gegn þeim og fjölmörg fyrirtæki fylgt í kjölfarið.