Tengingar Dettifossvegar ekki í mat

Vegtengingarnar eiga m.a. að bæta aðgengi að Hljóðaklettum.
Vegtengingarnar eiga m.a. að bæta aðgengi að Hljóðaklettum. Brynjar Gauti

Breyting á tengingum Dettifossvegar við Hólmatungur og Vesturdal/Hljóðakletta er ekki talin líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Skipulagsstofnun telur því að framkvæmdirnar séu ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdin er háð framkvæmdaleyfi Norðurþings. Áður en það er veitt þarf að liggja fyrir staðfest aðalskipulag Norðurþings. Bendir Skipulagsstofnun Vegagerðinni og Norðurþingi á að fjalla þarf um áhrif breytinga á veglínum í umhverfismati aðalskipulagstillögunnar.

Þá ítrekar Skipulagsstofnun mikilvægi þess að Vegagerðin og aðrir sem koma að framkvæmdinni viðhafi þá verktilhögun og mótvægisaðgerðir sem kynnt hafa verið við meðferð málsins og vöktun á aðgerðum og áhrifum.

Kæra má ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra og er kærufrestur til 28. maí. 

Á vef Vegagerðarinnar má lesa að lögð verði ný 2,6 km löng vegtenging að Hólmatungum og ný 1,4 km löng vegtenging að Langavatnshöfða ofan við Hljóðakletta og Vesturdal.

Breytingarnar eru kynntar að frumkvæði þjóðgarðsyfirvalda á Norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Þær eru gerðar til að auðvelda aðgengi allra að þjóðgarðinum með því að útbúa bílastæði í grennd við góða útsýnisstaði við Hólmatungur og Hljóðakletta/Vesturdal og til að draga úr bílaumferð í Vesturdal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert