Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðiflokks, og nefndarmaður í iðnaðarnefnd Alþingis, segir þingið kveða upp siðferðislegan dóm yfir Björgólfi Thor Björgólfssyni með breytingartillögu við frumvarp um heimild til samninga um gagnaver í Reykjanesbæ. Hann spyr hvaða fordæmi séu sett með tillögunni og hvernig samskipti ríkisins verði við aðra einstaklinga tengda útrásinni.
Iðnaðarnefnd samþykkti frumvarpið á fundi sínum í morgun. Lagt er til að stytta samningstímann um helming, úr tuttugu árum í tíu ár auk þess að með ákvæði í samningum fellur Novator, félag Björgólfs Thor, frá fjárhagslegum ábata sem tengist beinlínis fjárfestingasamningnum. Novator er hluthafi í Verne Holding, móðurfélagi gagnaversins fyrirhugaða.
Skúli Helgason, formaður iðnaðarnefndar, segir tvær ástæður liggja að baki því að lagt er til styttri samningstími. „Annars vegar er komið inn í þingið frumvarp iðnaðarráðherra um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. Það breytir landslaginu algjörlega og segja má að þetta sé síðasti sértæki fjárfestingasamningurinn sem gerður er. Við tekur almenn rammalöggjöf um ívilnanir. Í því frumvarpi er kveðið á um að samningstími verði til tíu ára. Hin skýringin er að Eftirlitsstofnun EFTA gerði athugasemd við samningslengdina. Því var ljóst að erfitt væri að ná samningnum óbreyttum í gegnum hana. Með þessu teljum við að Verne holding ætti að geta fengið grænt ljós hjá Eftirlitsstofnuninni.“
Jón Gunnarsson er því mjög fylgjandi að gagnaverið rísi og hefur talað fyrir því á Alþingi að málinu verði flýtt. Hann segir þó að umdeild atriði séu í breytingum iðnaðarnefndar. Meðal annars verði að spyrja hvort um þvingaða aðgerð hafi verið að ræða og hvaða áhrif hún kunni að hafa. „Ég tel Alþingi komið út á hála braut í löggjöf þegar farið er að þvinga fram samkomulag með þessu hætti. Auðvitað er hægt að segja, að samkomulagið komi til vegna yfirlýsingar Björgólfs Thors en hún er að sjálfsögðu gefin út vegna þess að fyrir lá að málið var öðrum kosti stopp.“
Hvað varðar siðferðislega þáttinn segist Jón algjörlega skilja þau sjónarmið. Hann hafi einfaldlega sagt, að ef setja eigi slíkar reglur sé hreinlegra að hafna því alfarið að eiga viðskipti við fyrirtæki útrásarvíkinga. „Ég meina, hvað ætla menn að gera í samskiptum við önnur fyrirtæki í eigu þessara manna?“
Jón segir mikilvægi verkefnisins svo mikið að það eigi ekki að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. „Ég læt ekki þátttöku útrásarvíkinga með hliðartengingu í svona verkefni eyðileggja meira fyrir okkur en orðið er.“
Jón segist ætla að taka málið upp á vettvangi þingsins og krefjast svara um hvaða stefnu Alþingi ætlar að móta sér þegar kemur að útrásarvíkingum, sem hafi þegar öllu er á botninn hvolft ekki verið dæmdir.