Hæstiréttur hefur fellt úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra um að framselja karlmann til Póllands. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður staðfest ákvörðunina.
Hæstiréttur staðfesti hins vegar annan úrskurð dómsmálaráðherra um að framselja beri annan pólskan karlmann.
Fyrra málið hefur verið nokkuð lengi að velkjast í dómskerfinu. Um er að ræða mann, sem var dæmdur í 18 mánaða fangelsi í Póllandi fyrir skjalafals og einnig í 18 mánaða fangelsi fyrir frelsissviptingu. Kröfðust pólsk stjórnvöld þess tvívegis að maðurinn yrði framseldur.
Dómsmálaráðherra hefur áður úrskurðað að orðið skyldi við framsalskröfunni og Hæstiréttur hefur sömuleiðis áður dæmt að sá úrskurður skyldi felldur úr gildi og nýr kveðinn upp.
Hæstiréttur vísar til ákvæðis í lögum um að í sérstökum tilfellum megi synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gegn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Dómsmálaráðherra taldi ekki, að þessi lagagrein ætti að standa í vegi fyrir framsali þótt maðurinn hefði verið búsettur hér á landi í rúm 3 ár, hefði aðlagast íslensku samfélagi ágætlega, hann eigi hér fjölskyldu, stundi atvinnu og hafi ekki komist í kast við lögin.
Hæstiréttur segir að þessi lögskýring dómsmálaráðherra samrýmist ekki tilgangi ákvæðisins og fellir úrskurðinn því úr gildi.
Hæstiréttur staðfesti hins vegar annan úrskurð dómsmálaráðherra um að Pólverji, sem hefur búið hér á landi ásamt fjölskyldu sinni frá árinu 2006, skuli framseldur til Póllands.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi árið 2005 verið dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir að ógna konu með hnífi og ræna af henni farsíma. Þá var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi árið 2004 fyrir að móðga lögreglumenn, sem hugðust stöðva för hans vegna gruns um akstur reiðhjóls undir áhrifum áfengis.