„Það er orðið brýnt að Alþingi standi vörð um skuldug heimili, hrægammarnir bíða í röðum og það er erfitt fyrir réttindalítið fólk að verjast árás þeirra," sagði Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, á Alþingi í morgun.
Hún vakti máls á umfjöllun Morgunblaðsins um hjónin á bænum Skáldabúðum í Árnessýslu, sem jörðin hefur verið seld frá án auglýsingar.
„Við erum rétt að byrja að sjá afleiðingar réttindaleysis skuldara. Hræðsla við gjaldþrot fær þá til að samþykkja nauðasamninga á forsendum lánastofnana," sagði Lilja.
Réttindaleysi skuldara stafaði ekki síst af hræðslu alþingismanna, við að ganga á eignarrétt lánveitenda. „Hræðsla sem er yfirsterkari réttlætiskennd fólks sem lent hefur í fjármálahamförum,“ sagði hún og minnti á að hér hefði heilt bankakerfi hrunið.
Skuldurum sé gert að halda áfram að borga af stökkbreyttum lánum. Það geri þeir ennþá en ef þeir geti það ekki missi þeir eignir sínar 1. október. Hún minnti því á frumvarp sitt um að allar skuldir þeirra sem verða gjaldþrota fyrnist á fjórum árum. Hvatti hún einnig þingmenn til að samþykkja það frumvarp, til að tryggja sanngjarna meðferð á málum skuldara.