Íslensk umræðuhefð líkist Morfís-keppni

Frummælendur og fundarstjóri á fundinum í dag.
Frummælendur og fundarstjóri á fundinum í dag.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor, sagði á opnum fundi um hrunskýrsluna í Háskóla Íslands í dag, að íslensk umræðuhefð líkis fremur Morfís-keppni með stóryrðum og aulabröndurum heldur en skoðanaskiptum. Þá sé virðingarleysi er algert fyrir sérfræðingum og röksemdum.

Ólafur sagði, að þótt bankarnir og ofvöxtur þeirra hafi orsakað hrunið þá beri stjórnmálakerfið ábyrgð á leikreglum, eftirliti og vörnum. Skýrslan sé áfellisdómur yfir íslenskt stjórnarkerfi og syndaregistrið sé langt. Það séu margar meinsemdir í uppbyggingu stjórnsýslukerfisins hér á landi, t.d. of mörg ráðuneyti, rík hefð fyrir fyrirgreiðslustjórnmálum og hér hafi pólitískar embættisveitingar verið landlægar alla tíð frá tímum Hannesar Hafstein.

Þá hafi stjórnmálaflokkarnir lengi skirrst við að setja sér reglur þrátt fyrir að háskólasamfélagið hafi hvatt til þess allt frá byrjun tíunda áratugarins. Ólafur sagði að ekki mætti þó skilja orð sín þannig að hann teldi allt ónýtt hér á landi og öllu þyrfti að umbylta. Ekki væri raunhæft að henda fjórflokknum en flokkarnir yrðu aftur á móti að skoða starfshætti sína og gera upp fortíðina. Það sé mikilvægt að velta vel fyrir sér hvað eigi að gera en ekki sé síður mikilvægt að spyrja hvað eigi ekki að gera.

Haldnir hafa verið hádegisverðarfundir í Háskóla Íslands í vikunni um rannsóknarskýrsluna og er síðasti fundurinn á morgun. Er yfirskriftin „Gagnrýnin umræða; hlutverk háskóla og fjölmiðla. Fundurinn verður í stofu 132 í Öskju og hefst kl. 12 og lýkur kl. 13.30.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka