Björgunarsveitarmenn frá Blönduósi og Hvammstanga voru kallaðir til í gær þegar þrjár kýr á bænum Litlu-Ásgeirsá í Víðidal lentu ofan í haughúsi. Hausinn á kúnum stóð einn upp úr haugnum að sögn Sigtryggs Sigurvaldasonar bónda. Björgunarmenn urðu haugskítugir við björgunina - í orðsins fyllstu merkingu.
Það vildi kúnum til lífs að Sigtryggur var búinn að keyra töluvert miklu úr húsinu undanfarna daga. Hann sagði að haugurinn hafi verið um 1,5- 1,7 metra djúpur. Á Litlu-Ásgeirsá er básafjós og 36 kýr í fjósi. Einni kúnni hafði tekist að krækja annarri afturlöppinni í grind yfir haughúsinu og lyfta henni svo grindin losnaði og féll niður.
Við það að hlerinn féll niður opnaðist um þriggja metra langt gat. Kýr á þremur básum framan við gatið slitu sig lausar og hrundu ofan í haughúsið. Sigtryggur sagði mikið lán að hálskeðjur kúnna skyldu hafa slitnað, annars hefðu þær hengst við að falla aftur fyrir sig.
„Það var bara rétt hausinn uppúr,“ sagði Sigurgeir um aðkomuna að kúnum. „Þær gátu lítið hreyft sig í þessu.“ Hann sagði að draga hafi þurft kýrnar á spili eftir endilöngu haughúsinu, um 15 metra vegalengd, að gati á húsinu.
„Það er ein svolítið dösuð,“ sagði Sigtryggur. Hann fékk dýralækni til að líta á kýrnar eftir að þeim var bjargað og telur að þær nái sér að fullu. Alls komu átta björgunarsveitarmenn til aðstoðar og unnu við björgunina ásamt bændum. En hvernig var verkunin á mannskapnum eftir björgunina?
„Þetta var ekki þrifaverk.“ sagði Sigtryggur. „Mannskapurinn var ekki hreinn. Þeir fóru bara í kafarabúninga!“ Smúla þurfti bæði menn og kýr. Sigtryggur kvaðst aldrei hafa lent í neinu viðlíka, „en það getur allt skeð í sveitinni,“ sagði hann ánægður með að allt fór vel.
Björgunarsveitirnar Húnar og Blanda voru kallaðar út um hádegið í gær, að því er segir á vef Landsbjargar. Vel gekk að ná kúnum úr prísundinni og einnig grind sem fallið hafði niður. „En með sanni má segja að hægt sé að finna hreinlegri störf en þessi,“ segir á vef Landsbjargar.