Kúm bjargað úr haughúsi

Kýrnar voru dregnar út um gat á haughúsinu. Þær voru …
Kýrnar voru dregnar út um gat á haughúsinu. Þær voru nokkuð dasaðar eftir. www.landsbjorg.is

Björg­un­ar­sveit­ar­menn frá Blönduósi og Hvammstanga voru kallaðir til í gær þegar þrjár kýr á bæn­um Litlu-Ásgeirsá í Víðidal lentu ofan í haug­húsi. Haus­inn á kún­um stóð einn upp úr haugn­um að sögn Sig­tryggs Sig­ur­valda­son­ar bónda. Björg­un­ar­menn urðu haugskít­ug­ir við björg­un­ina - í orðsins fyllstu merk­ingu.

Það vildi kún­um til lífs að Sig­trygg­ur var bú­inn að keyra tölu­vert miklu úr hús­inu und­an­farna daga. Hann sagði að haug­ur­inn hafi verið um 1,5- 1,7 metra djúp­ur. Á Litlu-Ásgeirsá er bása­fjós og 36 kýr í fjósi. Einni kúnni hafði tek­ist að krækja ann­arri aft­ur­löpp­inni í grind yfir haug­hús­inu og lyfta henni svo grind­in losnaði og féll niður.

Við það að hler­inn féll niður opnaðist um þriggja metra langt gat. Kýr á þrem­ur bás­um fram­an við gatið slitu sig laus­ar og hrundu ofan í haug­húsið. Sig­trygg­ur sagði mikið lán að hálskeðjur kúnna skyldu hafa slitnað, ann­ars hefðu þær hengst við að falla aft­ur fyr­ir sig.

„Það var bara rétt haus­inn up­p­úr,“ sagði Sig­ur­geir um aðkom­una að kún­um. „Þær gátu lítið hreyft sig í þessu.“ Hann sagði að draga hafi þurft kýrn­ar á spili eft­ir endi­löngu haug­hús­inu, um 15 metra vega­lengd, að gati á hús­inu.

„Það er ein svo­lítið dösuð,“ sagði Sig­trygg­ur. Hann fékk dýra­lækni til að líta á kýrn­ar eft­ir að þeim var bjargað og tel­ur að þær nái sér að fullu. Alls komu átta björg­un­ar­sveit­ar­menn til aðstoðar og unnu við björg­un­ina ásamt bænd­um. En hvernig var verk­un­in á mann­skapn­um eft­ir björg­un­ina?

„Þetta var ekki þrifa­verk.“ sagði Sig­trygg­ur. „Mann­skap­ur­inn var ekki hreinn. Þeir fóru bara í kafara­bún­inga!“ Smúla þurfti bæði menn og kýr. Sig­trygg­ur kvaðst aldrei hafa lent í neinu viðlíka, „en það get­ur allt skeð í sveit­inni,“ sagði hann ánægður með að allt fór vel.

Björg­un­ar­sveit­irn­ar Hún­ar og Blanda voru kallaðar út um há­degið í gær, að því er seg­ir á vef Lands­bjarg­ar. Vel gekk að ná kún­um úr prísund­inni og einnig grind sem fallið hafði niður. „En með sanni má segja að hægt sé að finna hrein­legri störf en þessi,“ seg­ir á vef Lands­bjarg­ar.

Mynd­ir af björg­un­inni á vef Húna 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert