Áheyrnarfulltrúi Vinstri grænna í bæjarráði Kópavogs vill að fimm manna nefnd óháðra sérfræðinga rannsaki aðdraganda, orsakir og afleiðingar efnahagshrunsins á bæjarfélagið og fjárhag þess. Tillagan var flutt í bæjarráði í dag en afgreiðslu hennar frestað til næsta fundar.
Í tillögunni segir að rannsóknarnefndin eigi að kanna:
- Stjórnsýslu bæjarins og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum.
- Hvort einstakir aðilar, s.s. verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.
- Hvort fjársterkir aðilar hafi beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar og stjórnsýslulegar ákvarðanir.
- Hvort fjársterkir aðilar hafi hagnast á tengslum við bæinn og einstaka embættismenn eða bæjarfulltrúa.
- Hvort einstakir embættismenn, bæjarfulltrúar eða frambjóðendur til bæjarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem átt hafa í viðskiptum við bæjarfélagið.
Auk þess á nefndin að koma með ábendingar og tillögur að breytingum á lögum, reglum, vinnubrögðum og skipulagi stjórnsýslu bæjarins.
Verði tillagan samþykkt á rannsóknarnefndin að skila niðurstöðum sínum fyrir 31. ágúst nk.