Lítið hefur verið hægt að fylgjast með eldgosinu í Eyjafjallajökli í dag. Að sögn Björns Oddssonar, jarðfræðings hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, er „gangur gossins“ sá sami og undanfarna daga; enn gýs af góðum krafti en samt mun minni en í upphafsfasanum. Þá sé gjóskan grófari en í fyrstu.
Björn fór í eftirlitsflug með Landhelgisgæslu Íslands í dag. Hann segir að klepragígur í ískatlinum haldi áfram að hlaðast upp og hraun að renna til norðurs. Þá hafi engar fréttir verið að öskufalli á Hvolsvelli í dag.