Síminn sektaður um 50 milljónir

Snæfellsnes.
Snæfellsnes. mbl.is/RAX

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest þá niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins að Síminn hafi brotið samkeppnislög gagnvart fjarskiptafélaginu TSC á Snæfellsnesi. Samkeppniseftirlitið gerði Símanum að greiða 150 milljónir króna í sekt en áfrýjunarnefndin lækkaði sektina í 50 milljónir.

Síminn segir, að farið verði yfir forsendur úrskurðarins og metið hvort tilefni sé til frekari málarekstrar en vísa má niðurstöðu nefndarinnar til dómstóla. 

TSC starfar eins og Síminn á markaði fyrir sölu á nettengingum og netþjónustu og hafa bæði fjarskiptaleyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun. TSC kvartaði til Samkeppniseftirlitsins í byrjun maí 2007 og taldi sig hafa misst viðskiptavini í kjölfar samruna Símans og Íslenska sjónvarpsfélagsins, sem rekur Skjá 1. Ástæðuna mætti rekja til þess að Síminn hafi boðið þeim, sem hafi keyptu nettengingu hjá fyrirtækinu, sjónvarp um netið án endurgjalds.

Þá taldi TSC að Síminn hefði komið í veg fyrir að fyrirtækið fengi aðgang að merki Íslenska sjónvarpsfélagsins til að dreifa til viðskiptavina sinna.

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu, að Síminn hefði brotið gegn tveimur skilyrðum, sem sett voru fyrir samruna Símans og Íslenska sjónvarpsfélagsins árið 2005. Úrskurðarnefndin staðfesti þessa niðurstöðu, og  segir að brot Símans séu alvarleg og háttsemi fyrirtækisins í andstöðu við nokkur meginatriði þess sem það undirgekkst sjálft að hafa í heiðri þegar samruninn við Íslenska sjónvarpsfélagið var heimilaður.

Þá telur áfrýjunarnefndin einnig að háttsemi Símans hafi verið neytendum til tjóns.

Samkeppniseftirlitið taldi hæfilegt að leggja á Símann sekt að fjárhæð  150 milljónir króna. Var í því sambandi m.a. horft til eldri brota Símans á samkeppnislögum. Áfrýjunarnefndin lækkaði þessa sekt í  50 milljónir og vísaði til versnandi fjárhagsafkomu Símans og að hugsanlegir tæknilegir annmarkar hafi verið samverkandi þáttur í hluta brotsins.

Þá felldi áfrýjunarnefnd úr gildi fyrirmæli, sem Samkeppniseftirlitið hafði beint til Símans, til þess að bæta samkeppnisstöðu minni keppinauta þar sem nefndin taldi að fyrirmælin féllu ekki undir þá heimild sem stuðst var við. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka