Fréttaskýring: Skipstjórum hrýs hugur við úthafinu

Þyrla Landhelgisgæslunnar við björgunarstörf.
Þyrla Landhelgisgæslunnar við björgunarstörf. mbl.is/RAX

Vegna samdráttar í rekstri Landhelgisgæslunnar hefur dregið úr möguleikum hennar til björgunar, sérstaklega þegar sækja þarf sjúka eða slasaða sjómenn með þyrlu meira en 20 mílur frá landi. Sjómenn hafa af þessu miklar áhyggjur og telja að það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær ótímabært dauðsfall ber að höndum vegna þessa. Mönnum er sérstaklega hugsað til sjómanna sem verða við úthafskarfaveiðar á næstu vikum.

„Því er ekki að neita að vegna árferðis hefur Landhelgisgæslan þurft að draga saman í rekstri eins og aðrir. Þó hefur okkur tekist með breyttu skipulagi og verklagi að draga mjög mikið úr því tjóni sem annars hefði orðið vegna fjárskorts. Við höfum notið skilnings stjórnvalda en vildum geta gert miklu betur,“ segir Georg Lárusson forstjóri.

Yfirleitt ein þyrla til taks

Georg segir að stofnunin sé nú aðeins með fimm þyrluáhafnir og þær nái að dekka eina vakt og einn þriðja úr annarri. Það þýðir að yfirleitt er aðeins ein björgunarþyrla til taks og ekki hægt að treysta því að mögulegt sé að manna aðra þyrluna þótt hún sé tiltæk að öðru leyti.

Sparnaðurinn kemur einnig niður á úthaldi skipa Landhelgisgæslunnar. Týr er eina varðskipið sem gert er út í sumar. Það takmarkar einnig björgunargetu Gæslunnar.

„Sjómenn vilja að líf þeirra verði metið jafn dýrmætt og annarra þjóðfélagsþegna. Til þess að hægt sé að halda því fram með rökum að svo sé þarf að vera lágmarks viðbúnaður hjá Gæslunni,“ segir Árni Bjarnason, forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

Árni segist hafa orðið mjög var við áhyggjur skipstjórnarmanna og öryggisleysi, sérstaklega þeirra sem sækja langt. „Þeim hrýs hugur við því að halda út á þetta hafsvæði með það á bakinu að geta lenti í slæmri stöðu þar sem enga þyrlu er að fá,“ segir hann.

Hann segir að sjómenn telji að setja þurfi björgunarmálin ofar í forgangsröðina. Ríkið sé að leggja fé í ýmislegt annað sem megi bíða.

Úthafskarfaveiðarnar eru að hefjast. Þá verður væntanlega fjöldi íslenskra skipa að veiðum langt undan landi. Björgunarþyrlurnar fara helst ekki meira en 20 mílur frá landi nema önnur þyrla sé tiltæk. Georg segir þó að aðstæður séu metnar í hverju tilviki. Það veiti öryggi ef skip eru í leiðinni, sérstaklega björgunarskip, þar sem hægt er að taka eldsneyti. „Við reynum að vera með skip sem mest á karfaslóðinni,“ segir Georg um úthafskarfaveiðarnar. Hann segir að samvinna sé við aðrar þjóðir og þegar íslenskt varðskip geti ekki verið úti séu þar skip frá öðrum þjóðum.

332 bjargað af sjó

Á árunum 1994 til 2008 var alls 1344 einstaklingum bjargað með þyrlum og flugvélum Landhelgisgæslunnar, þar af fimmtungur af sjó. Af þeim 332 sem bjargað var af sjó var 143 bjargað að nóttu til.

Auk þyrlna og flugvélar hefur Gæslan yfir að ráða tveimur varðskipum. Ægir verður í verkefnum fyrir Evrópusambandið fram á haust og er Týr því einn eftir. Forstjóri Landhelgisgæslunnar segir að þetta verkefni sé mikilvægt fyrir Landhelgisgæsluna og geri það að verkum að ekki þurfi að segja upp heilli áhöfn. Nýtt og öflugt björgunarskip er í smíðum í Chile.

Flugvélin TF-SIF hefur sannað gildi sitt við upplýsingaöflun í eldgosunum að undanförnu. Hún verður væntanlega leigð í verkefni fyrir ESB í sumar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert