Tóku ekki afstöðu

Frá Prestastefnu, sem hófst á þriðjudagskvöld.
Frá Prestastefnu, sem hófst á þriðjudagskvöld. mbl.is/Kristinn

Samþykkt var á Prestastefnu í dag, með 56 atkvæðum gegn 53, að vísa tveimur tillögum sem lágu fyrir fundinum um lagafrumvarp um breytingar á hjúskaparlögum, til biskups og kenningarnefndar kirkjunnar.

Fyrir Prestastefnu, sem nú fer fram í Vídalínskirkju í Garðabæ, lá tillaga frá 91 presti og guðfræðingi um að lýsa stuðningi við lagafrumvarp dómsmálaráðherra um að ein hjúskaparlög gildi og þannig verði afnuminn sá munur, sem felst í mismunandi löggjöf vegna hjúskapar karls og konu annars vegar og staðfestingar samvistar tveggja einstaklinga af sama kyni hins vegar.

Sagði í tillögunni að íslenska þjóðkirkjan væri í stakk búin til að stíga þetta skref með ríkisvaldinu í ljósi ítarlegrar gruðfræðilegrar umfjöllunar síðustu ára á kirkjulegum vettvangi um kirkju, kynhneigð og hjónaband.

Geir Waage, sókarprestur í Reykholti, lagði á móti fram tillögu á Prestastefnu um að beina því til Alþingis að létta af prestum Þjóðkirkjunnar umboði til þess að vera vígslumenn í skilningi hjúskaparlaga. Sagði Geir við mbl.is, að það myndi þýða, að prestar færu ekki lengur með hið lögformlega vígsluhlutverk. Fólk þyrfti þá formlega að gifta sig, t.d. hjá fógeta, en gæti eftir sem áður notið blessunar í kirkju óskaði það þess. 

Umræða um tillögurnar hófust á Prestastefnu í morgun og voru skoðanir skiptar. Þriðja tillagan kom þá fram frá sr. Gunnlaugi Garðarsyni um að vísa hinum tveimur tillögunum til biskups og kenninganefndar kirkjunnar sem muni síðan skila áliti um málið.

Í kenningarnefnd sitja biskupar og fulltrúar presta og guðfræðideildar Háskóla Íslands. Nefndin hefur áður fjallað um staðfesta samvist og afstöðu kirkjunnar gagnvart henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert