Verið að fremja níðingsverk í bönkunum

Þráinn Bertelsson og Árni Johnsen á þingi.
Þráinn Bertelsson og Árni Johnsen á þingi. mbl.is/Ómar

„Í íslensku bönkunum í dag eru framin níðingsverk. Það sama á við um fjármögnunarleigurnar," sagði Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, á alþingi í dag.

„Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá hjónum í Árnessýslu sem voru neydd til að selja jörð sína, án auglýsingar, ættingjum bankastjórans sem vélaði um málið," sagði Árni. Þetta væri engu lagi líkt.

Spurði hann því Björn Val Gíslason, formann samgöngunefndar Alþingis, hvað honum finndist um það að bankar komist upp með að „keyra fólk ofan í svaðið" eins og hann orðaði það.

„Ég held að það sé vægt til orða tekið að hér séu unnin níðingsverk," sagði Árni,

Björn Valur sagðist ekki þekkja þetta tiltekna mál sérstaklega og hann gæti því ekki tjáð sig um það. Hins vegar, miðað við að hafa lesið fyrstu setningarnar í fréttinni og hlustað á lýsingar þingmannsins, mætti hafa mörg orð um málið og ekki öll falleg.

Sagði hann að þessi mál hefðu ekki verið sértaklega rædd í samgöngunefnd, sem fjallar einnig um sveitarstjórnarmál. Hins vegar væri ef til vill orðin full þörf á því að ræða þau.

„Það hafa verið uppi sögusagnir um að fulltrúar banka gangi um sveitir og bjóði bændum uppstokkun á skuldamálum, en að bankarnir ætli sér að loka skuldugustu búunum," sagði Björn Valur. Sér þætti rétt að leita svara við því hvort flugufótur sé fyrir þeim sögusögnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert