Samfylkingin hefur óskað eftir því að borgarráð fái yfirlit yfir stöðu ferðaþjónustunnar í Reykjavík í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli og mögulegar aðgerðir Reykjavíkurborgar í ljósi hennar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar í borginni.
„Ferðaþjónusta er þegar sú atvinnugrein sem skapar mestar gjaldeyristekjur í Reykjavík og lykilþáttur í að efla atvinnu og þar með stöðu borgarinnar til næstu ára.
Mjög mikilvægt að sá vandi sem skapast hefur vegna eldsumbrotanna á Suðurlandi valdi ekki varanlegu bakslagi í bókunum og heimsóknum ferðamanna - heldur frekar að sú kynning á landi og þjóð sem umfjöllun um gosið hefur vissulega haft í för með sér verði nýtt til að auka áhuga á að sækja Ísland heim, sé þess nokkur kostur,“ segir Dagur.
Fundur borgarráðs fer fram í dag.