Vilja rannsókn á áhrifum hrunsins á borgina

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus

Borgarfulltrúar VG lögðu fram tillögu á fundi borgarráðs Reykjavíkur í dag um að fram fari rannsókn á aðdraganda, orsökum og afleiðingum  efnahagshrunsins á borgina og fjárhag hennar. Tillögunni var vísað til aðgerðarhóps borgarráðs sem mun funda um hana á mánudag.

Stefnt er að því að afgreiða tillöguna á fundi borgarráðs að viku liðinni.

Samkvæmt tillögunni á að skipa fimm manna nefnd, sem kanni m.a. stjórnsýslu borgarinnar og aðkomu stjórnmálamanna að fjárhagslegum ákvörðunum á undanförnum árum. Þá verði kannað hvort einstakir aðilar eins og verktakar, bankar og fyrirtækjasamsteypur hafi nokkurn tímann fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.

Nefndin á einnig, samkvæmt tillögunni, að kanna hvort fjársterkir aðilar hafi beint eða óbeint haft áhrif á pólitískar og stjórnsýslulegar ákvarðanir eða hagnast á tengslum við borgina og einstaka embættismenn eða borgarfulltrúa.

Þá á nefndin að kanna hvort einstakir embættismenn, borgarfulltrúar eða frambjóðendur til borgarstjórnar hafi hagnýtt sér persónulega eða í þágu síns flokks tengsl við fjársterka aðila sem hafa átt í viðskiptum við borgina.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert