Samþykkt var ályktun á prestastefnu í dag um að tekin verði saman skýrsla um þjóðkirkjuna og bankahrunið. Í skýrslunni verði m.a. leitast við að greina styrkleika og veikleika í störfum kirkjunnar gagnvart anda og iðju sem hér þreifst fyrir bankahrunið og þeim áföllum sem dundu á þjóð og einstaklingum við hrun bankanna.
Þá verði tillögur í skýrslunni um hvaða starfsþætti þjóðkirkjunnar þurfi að styrkja og hverju þurfi að breyta til að starf kirkjunnar verði í samræmi við köllun þjóðkirkju og til hags fyrir íslenskt samfélag.
Samþykkt önnur ályktun þar sem hvatt er til samstöðu, þolgæðis og vonar á erfiðum tímum. Útkomu rannsóknarskýrslu Alþingis er fagnað og er rannsóknarnefndinni þakkað fyrir þann grunn sem skýrslan veiti til uppbyggingar og endurreisnar í íslensku þjóðfélagi.
„Hreinskilið og undanbragðalaust uppgjör skiptir nú afar miklu máli og vill Prestastefnan hvetja til þess að umbótaviljinn sem skýrslan vekur sé virkjaður. Þjóðkirkjan áréttar mikilvægi bjartsýnnar lífsafstöðu, trausts og trúnaðar við kristin gildi og mun nú sem endranær hafa umhyggju, kærleika og réttlæti til grundvallar starfi sínu," segir m.a. í ályktuninni.