Aska undir viðmiðunarmörkum

Mynd tekin úr vestri í flugvél á leið til Vestmannaeyja. …
Mynd tekin úr vestri í flugvél á leið til Vestmannaeyja. Flugvélin var í 9.000 feta hæð og gosmökkurinn teygir sig upp í um 11.000 feta hæð. Til hliðar sést svo gjóskan sem fellur til suðurs. Ljósmynd/Þorleifur Einar Pétursson

Fyrstu niðurstöður úr könnunarleiðangri þýskrar rannsóknarvélar, frá þýsku loftrannsóknarmiðstöðinni, benda til að öskulag yfir Reykjanesi sé langt undir viðmunarmörkum fyrir flug. Raunar er það ekki yfir viðmiðunarmörkum nema rétt í kringum sjálft gosið, að sögn Haraldar Ólafssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Ekki eru komnar fram nákvæmar tölur úr fluginu sem farið var í gær en fyrir liggur mynd sem sýnir agnir í 2000-5500 metra hæð skammt fyrir SA-land.  Ekki liggur fyrir hver þéttleikinn er, en þó er ljóst að hann er töluvert undir bannmörkum fyrir flug.

Einnig var flogið í nokkrum hæðum yfir Reykjanesskaga og varð vart við lítilsháttar af ögnum, hugsanlega ösku, einnig langt undir viðmiðunarmörkum.

Áætlað er að fljúga aftur á morgun, meðfram og svo þvert á strókinn, hátt yfir honum og greina hvar askan er þéttust með leysigeisla.  Jafnframt er gert ráð fyrir lágflugi þvert á mökkinn í þeirri hæð sem hann er þéttastur. Ef allt gengur að óskum verður einnig kvöldflug á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert