Fyrstu niðurstöður úr könnunarleiðangri þýskrar rannsóknarvélar, frá þýsku loftrannsóknarmiðstöðinni, benda til að öskulag yfir Reykjanesi sé langt undir viðmunarmörkum fyrir flug. Raunar er það ekki yfir viðmiðunarmörkum nema rétt í kringum sjálft gosið, að sögn Haraldar Ólafssonar, veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Ekki eru komnar fram nákvæmar tölur úr fluginu sem farið var í gær en fyrir liggur mynd sem sýnir agnir í 2000-5500 metra hæð skammt fyrir SA-land. Ekki liggur fyrir hver þéttleikinn er, en þó er ljóst að hann er töluvert undir bannmörkum fyrir flug.
Einnig var flogið í nokkrum hæðum yfir Reykjanesskaga og varð vart við lítilsháttar af ögnum, hugsanlega ösku, einnig langt undir viðmiðunarmörkum.
Áætlað er að fljúga aftur á morgun, meðfram og svo þvert á strókinn, hátt yfir honum og greina hvar askan er þéttust með leysigeisla. Jafnframt er gert ráð fyrir lágflugi þvert á mökkinn í þeirri hæð sem hann er þéttastur. Ef allt gengur að óskum verður einnig kvöldflug á morgun.