Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur unnið tillögur um verndun grunnslóðar í Önundarfirði, Hrútafirði/Miðfirði, Húnafirði, Skagafirði og Seyðisfirði/Loðmundarfirði. Tilgangurinn er sá að treysta gunnslóðir sem veiðisvæði smærri báta með umhverfisvænni veiði samhliða verndun sjávarbotnsins og lífríkisins alls á þessum svæðum.
Tillögurnar taka mið af því að veiðum með dragnót verði haldið áfram á vissum svæðum, en með breytingunum náist að fara bil beggja, þeirra sem vilja stöðva veiðar alfarið næst landi með dregnum veiðarfærum og þeirra sem vilja veiðar alls staðar í flóum og fjörðum með dragnót, allt til fjöru. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Tillögurnar eru unnar í tilefni af miklum fjölda ályktana frá heimamönnum og sveitarstjórnum á hverjum stað og undirskriftum sem safnað hefur verið. Í þeim er tekið tillit til þess sjónarmiðs að veiðum með ólíkum veiðarfærum sem ekki fari saman, verði haldið aðskildum með skipulögðum hætti.
Með tillögunum fylgir samantekt um veiðar í dragnót á hverju svæði fyrir sig, sem og kort, unnið á Hafrannsóknastofnuninni, um veiðar innan þeirrar línu sem gerð er tillaga um að lokað verði fyrir dragnót, einnig töflur um veiði eftir árum á sömu svæðum eftir skráningarreitum og undirreitum.
Óskað er eftir skriflegum athugasemdum frá samtökum og hagsmunaaðilum á viðkomandi svæðum við tillögunum.
Tillögur þessar eru jafnframt settar á vefsvæði ráðuneytisins og er öllum öðrum gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum. Allar tillögur eða athugasemdir skulu berast skriflega til ráðuneytisins fyrir 20. maí næstkomandi.
Á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins má finna mun nánari útskýringar á tillögunum, uppdrætti af fyrirhugðum breytingum og upplýsingar um hvernig veiðum hefur verið háttað á viðkomandi svæðum.