Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, kynnti frumvarp um myntkörfulán á ríkisstjórnarfundi í dag. Sagði Árni eftir fundinn, að frumvarpið færi nú síðan hefðbundu leið til þingflokka og síðan inn á Alþingi. Hann kynni hins vegar að draga frumvarpið til baka ef samkomulag næst við eignaleigufyrirtæki og banka um lækkun höfuðstóls þessara lána.
„Það var samþykkt að frumvarpið gengi áfram til þingflokka. Það var einhugur um það í ríkisstjórinni,“ segir Árni Páll.
„Við höfum alltaf sagt að við séum tilbúin til samkomulags við fyrirtækin. Nú eru sum fyrirtækin að taka undir það,“ segir Árni Páll.
Samkomulag hafi þann augljósa kost að það flýti meðferð mála. „Auðvitað flýtir það fyrir ef við getum náð samkomulagi við fyrirtæki um þetta,“ segir hann. Aðspurður segir hann jafnframt að frumvarpið verði dregið til baka náist slíkt samkomulag.