Frumvarp um strandveiðar samþykkt

Alþingi samþykkti í dag frumvarp sjávarútvegsráðherra um strandveiðar en samkvæmt því getur ráðherra ráðstafað 6000 lestum óslægðum botnfiski sem nýttar skulu til veiða með handfærum á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst.

Frumvarpið var samþykkt með 34 atkvæðum en 14 þingmenn sátu hjá.

Talsverðar deilur hafa verið á Alþingi um málið. Við atkvæðagreiðsluna í dag sagði Sigurður Ingi Jóhannesson, þingmaður Framsóknarflokksins, að í frumvarpinu fælist talsvert opin heimild til ráðherra til að fara að vild með túlkanir á lögunum. 

Þá væri gert ráð fyrir því, að á næstu fiskveiðiárum væri gert ráð fyrir því að kvótinn, sem úthlutað verður, sé tekinn af öðrum og honum endurúthlutað.  Hins vegar hefu framsóknarmenn ákveðið að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna þar sem stuðningur væri innan flokksins við strandveiðar.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að margir skavankar væru á frumvarpinu en sjávarútvegsráðherra hefði tekið um það ákvörðun um auka aflaheimildir um 6 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári og sagt, að þá aukningu sé að finna í þessu frumvarpi. Sjálfstæðismenn vildu ekki koma í veg fyrir að aflaheimildir verði auknar og því hefðu þeir ákveðið að sitja hjá.

Atli Gíslason, þingmaður VG, sagðist styðja frumvarpið stoltur og fagnandi og það gerði mikill meirihluti þingmanna. Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að verið væri að færa byggðum landsins á ný rétt íbúanna til að nýta sér fiskimiðin við stendur landsins. Sagði hún að sú tilraun, sem gerð var um strandveiðar á síðasta ári, hefði tekist vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert