Samkvæmt frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra um tímabundna heimild til greiðsluaðlögunar bílalána til einstaklinga getur lækkun á höfuðstól bílaláns aldrei numið hærri fjárhæð en þremur milljónum króna. Frumvarpið verður lagt fram á Alþingi eftir helgi.
Í frumvarpinu segir m.a. að komi til þess að lánveitandi leysi til sín bifreið skuldara en eftirstöðvar lánsins nema hærri fjárhæð en söluverð bifreiðarinnar getur lánveitandi ekki gengið að íbúðarhúsi skuldarans til að innheimta kröfur sínar. Greiði skuldari helming skuldarinnar á næstu þremur árum skulu eftirstöðvarnar falla niður.
Þar sem gengistryggð lán hafa hækkað allt að 80% meira en verðtryggð lán til bílakaupa verður þessi umframhækkun tekin til baka að stærstum hluta. Þó verður reiknað 15% álag á lánin vegna hagstæðari vaxtakjara sem lántakendur nutu fyrir fall krónunnar og þeirrar áhættu sem fólst í töku gengistryggðra lána.