Þráinn Bertelsson, óháður þingmaður, sagði á Alþingi í dag að réttarhöld yfir 9 einstaklingum, sem ákærðir voru fyrir brot gegn Alþingi og fleiri brot, væru blettur á réttarfarinu.
Þráinn sagði, að dómsvaldið væri búið að setja rétt yfir 9 manns, sem vísað var með ofbeldi af svölum Alþingi þar sem þeir komu með fullum rétti þeirra erinda að vara þing og þjóð við því hruni sem yfirvofandi væri.
Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði í upphafi þingfundar að lögreglan hefði í morgun reynt með grófu ofbeldi að ryðja dómssal í opnu réttarhaldi. Sagði Þór að þetta hefði verið gróf aðför að réttarríkinu.
Sagði Þór, að Alþingi hefði sjálft haft frumkvæði að því að þetta mál væri rannsakað og sent til saksóknara. Brýnt væri að útskýrt væri hver aðkoma Alþingis væri og með hvaða hætti þingið ætlaði að fjalla um þetta opinberlega „því þetta var einhver mesti skandall sem um getur og setur spurningamerki við réttarríkið Ísland," sagði Þór.