Slys í Hellisheiðarvirkjun

Stöðvarhús Hellisheiðarvirkjunar.
Stöðvarhús Hellisheiðarvirkjunar. Ómar Óskarsson

Þrír menn voru fluttir á sjúkrahús eftir slys í stöðvarhúsi Hellisheiðarvirkjunar í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi voru mennirnir að vinna uppi á stillans inni í húsinu þegar einhvers konar gasleki varð. Einn þeirra komst klakklaust út en tveir urðu hins vegar eftir inni, eftir að hafa hent sér niður af stillansinum eftir því sem næst verður komist.

Lögreglumaður sem rætt var við hafði ekki allar upplýsingar en svo virðist sem mennirnir hafi hafnað ofan í einhvers konar gryfju og þar vankast út af gufum sem voru í loftinu, en það hafa líklega verið koltvísýringur og brennisteinsvetni.

Mennirnir voru að vinna við að koma einni aflvél virkjunarinnar í gang eftir að henni sló út um miðnættið.

Sá sem komst út hringdi eftir hjálp og var lögreglumaður frá Selfossi fyrstur á vettvang. Hann setti á sig reykkafarabúnað og fór inn í húsið og tókst að bjarga einum af hinum tveimur út. Sjúkrabílar voru kallaðir til bæði frá Selfossi og úr Reykjavík og komu tveir slökkviliðsbílar frá Reykjavík og tveir frá Selfossi á staðinn einnig. Náðu slökkviliðsmenn þriðja manninum út úr húsinu.

Mennirnir voru sem fyrr segir fluttir á Landspítalann í Fossvogi . Lítið amar að þeim sem komst út sjálfur. Annar er enn í skoðun, en hann varð nokkuð vankaður inni í húsinu. Hann hélt þó meðvitund allan tímann og er líklega ekki alvarlega slasaður. Þriðji maðurinn var án meðvitundar þegar hann var fluttur af vettvangi. Hann er nú kominn til meðvitundar, að sögn vakthafandi læknis á slysadeild, en hefur verið lagður inn á gjörgæsludeild til frekara eftirlits. Hann er alvarlega slasaður.

Rannsókn málsins er hafin en það eru lögreglan og Vinnueftirlitið sem munu rannsaka hvað fór úrskeiðis. Samkvæmt tilkynningu frá Orkuveitu Reykjavíkur virðast viðbrögð starfsmanna hafa verið rétt og ekkert bendi til annars en að farið hafi verið að öryggisreglum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert