„Þinghald undir lögreglustjórn“

„Þetta hefði verið algjörlega friðsamlegt ef lögreglan hefði ekki brotist inn í salinn,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, verjandi tveggja sakborninga af níu sem eru sakaðir um brot gegn Alþingi. Mál gegn þeim var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Stuðningsmenn nímenninganna fjölmenntu í héraðsdóm til að fylgjast með fyrirtökunni og sýna sakborningum stuðning. Lögreglan var hins vegar kölluð á vettvang til að fjarlægja tvo stuðningsmenn sem hlýddu ekki fyrirmælum um að sitja í réttarsal. Fjölmennt lögreglulið fór á staðinn og kom til stimpinga við handtökurnar.

„Þinghaldið var haldið undir lögreglustjórn. Það er að segja að lögreglan stjórnaði réttarhaldinu með viðveru sinni. Þrír, fjórir, fimm lögreglumenn voru inni í salnum allan tímann, og viku ekki þrátt fyrir óskir þar um,“ segir Ragnar.

„Þetta er algjörlega nýtt. Samfélagið breytist ótrúlega ört úr þessu litla friðsama samfélagi í þetta óhugnanlega hörkulega samfélag, þar sem ofbeldið á að ráða öllu,“ segir Ragnar ennfremur.

Stuðningsmenn og verjendur sakborninganna furða sig á viðbrögðum yfirvalda. Þeir mótmæla aðgerðum lögreglunnar og segja að allt hafi verið ró og spekt þar til lögreglan mætti í réttarsalinn.

Mennirnir eru enn í haldi en verður væntanlega sleppt að lokinni skýrslutöku.

Þá voru flugeldar sprengdir í anddyri héraðsdóms að lokinni fyrirtöku og myndaðist nokkur reykur. Flestir voru þá farnir út og sakaði því engan.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka