Viðbrögð kirkjunnar komu ekki á óvart

Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra.
Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að viðbrögð þjóðkirkjunnar við frumvarpi um ein hjúskaparlög fyrir alla hefðu ekki komið á óvart en á prestastefnu í gær var ekki tekin afstaða til tillögu um að lýsa yfir stuðningi við frumvarpið.

„Viðbrögðin við þessu koma ekki algerlega á óvart þótt óneitanlega hefði maður kosið að þjóðkirkjan, sem hefur samfélagslegum skyldum að gegna, hefði tekið jákvæðar í málið," sagði Ragna.

Hún var að svara fyrirspurn frá Auði Lilju Erlingsdóttur, þingmanni VG, sem spurði Rögnu m.a. hvort hún hefði velt því fyrir sér, að heimild til að vígja fólk til húskapar væri eingöngu á hendi borgaralegra stofnana.

Ragna sagði að í frumvarpinu væri ekki gert ráð fyrir skyldu presta til að vígja hjónabönd ef þeir sökum trúarsannfæringar teldu sig ekki geta gert það. Því væri það látið í hendur trúfélaga hvernig þau standi að þessum málum. 

Sagist Ragna ekki telja rétt að þvingun eigi að gilda taka vígsluvaldið af trúfélögunum og ekki væri tilefni til þess miðað við málið, sem nú liggur fyrir þinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert