Lögregla var með talsverðan viðbúnað í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem í morgun var tekið fyrir mál gegn 9 einstaklingum, sem eru ákærðir fyrir brot gegn Alþingi og fleiri lagabrot. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var einn maður fjarlægður úr dómhúsinu.
Fólkið er ákært fyrir brot gegn Alþingi, brot gegn valdstjórninni, almannafriði og allsherjarreglu, og húsbrot með því að hafa, þann 8. desember 2008, ásamt hópi óþekktra manna, í heimildarleysi ruðst inn í Alþingishúsið við Austurvöll meðan á þingfundi stóð.
Í ákæruskjali er mótmælendum gefið að sök að hafa veist að sex þingvörðum og lögreglumanni með ofbeldi, hótun um ofbeldi og ofríki í þeim tilgangi að komast upp á þingpalla. Einn þingvarða slasaðist sýnu mest; hlaut tognun á hálsi, hálshrygg, brjóst- og lendhrygg og mar á brjóstkassa.